Var fæðingarorlofið ekki sett fyrir barnið?

Það eru ein ólögin sem voru sett þegar nýjustu fæðingarorlofslögin voru sett að  einstætt foreldri fengi bara 6 mánuði í stað 9 hjá sambúðarfólki og hjónum. Og maður spyr sig var verið að setja þetta fyrir foreldrið eða barnið? Ég hef alltaf litið svo á að þetta væri fyrir barnið. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta og það strax.

 Auk þess sem það þarf að lengja fæðingarorlofið í að minnsta kosti eitt ár helst lengur,tvö ár væri gott,  þrjú ár frábært. Ég held að við þurfum alvarlega að huga að því að styrkja fjölskyldu tengslin og eyða meiri fé í þessi mál ef það gæti komið í veg fyrir að börn og unglingar lendi á glapstigu vegna ónægra tengsla við sína nánustu væri það besta forvörnin .Það er sorglegt til þess að vita að börn og unglingar eru svo einmana í dag að þau leiðast út i allra handa vitleysur, fremja jafnvel sjálfsmorð í örvæntingu.

16 mánaða gamalt barn er alltof ungt til að fara á leikskóla, það þarf á ást og umhyggju  foreldra sinna að halda, leikskólinn getur aldrei komið í stað góðra og umhyggjusamra foreldra. Barnið er í mikilli þörf fyri ást og umhyggju  og fagmennska leikskólanna jafnast aldrei á við hana. Ég veit að það er fullt af góðum foreldrum sem mundu glaðir vera heima hjá sínu barni ef þau gætu það fjárhagslega.

 Því segi ég, að það á að bjóða fólki að hafa val um að hafa barnið heima eða setja það á leikskóla með því að borga foreldrum það beint sem bæjar eða sveitarfélag er að borga til leikskólans vegna hvers barns. Síðan þarf að hækka barnabætur umtalsvert hjá tekjulágu fólki. Ef þetta skilaði sér í færri afbrotum og minni fíkniefnaneyslu þá gæti peningunum ekki verið betur varið , því börnin okkar eru nú einu sinni framtíðin  og það dýrmætasa af öllu í heimi hér.

Að hafa frían leikskóla tel ég að mundi ekki skila neinu af því sem ég hef verið að skrifa hér aðeins auka á einmana leika og óhamingju barnana okkar en ekki færa þeim hamingju eins og þau mundu njóta heima hjá sér og síðan þyrfti að leggja pening í að reyna bjarga þeim þegar í óefni er komið.

Því segi ég betra er að byrgja brunninn áður en að barnið er dottið ofaní.

Við hjá Frjálslynda flokknum viljum styrkja fjölskylduböndin og færa gleði og hamingju inn í lítil hjörtu munið því að setja. X-F. 12 MAÍ.


Mesti þjófnaður Íslandsögunnar, löglegt en siðlaust

Þegar Ólafslög Framsóknarflokksins 1979 voru samþykkt, með dyggum stuðningi Krata, var alþýðu þessa lands komið í skuldafangelsi allt sitt líf. Á ég þá við verðtrygginguna, því hún er algjör svívirða og á enga hliðstæðu í öðrum löndum.  Það er alveg útilokað að það geti talist eðlilegir viðskiptahættir að skuldin aukist í hverjum mánuði þrátt fyrir að fólk borgi himinháar upphæðir mánaðarlega. Þessu þarf að breyta sem allra fyrst og afnema þann óskapnað úr íslensku þjóðlífi, þetta er þjóðarskömm.  Því segi ég: Þetta er hreinn og klár þjófnaður.

Ég tók erlent húsnæðislán í desember 2004 upp á 10 milljónir , 50% í japönsku jeni og 50% í svissneskum frönkum. Vextir af jeninu eru 2.4% og frönkunum 3.9% með vaxtaálagi. Það er sannarlega annað líf að vera  með svona húsnæðislán sem maður sér lækka í hverjum mánuði. Áætluð greiðsla á mánuði var 55.000, en hefur lengst af verið fyrir neðan það, lægst farið í 43.000 á mánuði, en sex sinnum farið ofan við 55.000, mest 59.000. Best er að taka erlent lán þegar gengisvísitalan er há en ekki langt niðri, best væri 120.000-130.000, því þá getur maður varla annað en grætt. Ef maður hinsvegar tæki það þegar gengisvísitalan væri lág þá gæti maður verið í verri málum.  Ég greiddi í afborganir 403.708 og í vexti 247.513 á síðasta ári. Lánið er til 25 ára og get ég borgað inn á það aukalega hvenær sem ég vil, án aukakostnaðar. Það myndi breyta miklu fyrir þá sem hafa lítið milli handanna í peningum ef verðtryggingin yrði afnumin og vextirnir lækkaðir, helst niður í 3-4% á húsnæðislánum. Frjálslyndi flokkurinn vill afnema verðtryggingu, kjósið því X-F 12. maí.


Guðjón góður að vanda.

Guðjón  Arnar stóð sig vel að vanda í kvöld á Stöð tvö.Hann er heilsteyptur og heiðarlegur í allri sinni framgöngu og samkvæmur sjálfum sér. Það er ljóst að þar fer maður sem þorir getur og vill, það sem íbúum þessa lands kemur best og hvikar hvergi. Ég minnist þess ekki að nokkur stjórnmálamaður hafi viðhaft þau orð sem Guðjón sagði á landsfundi Frjálslynda flokksins 2007 þegar hann sagði aðspurður." Að vera á Alþingi er bara vinna", það er nefnilega málið að þannig hugsa þeir sem sem vilja vinna fyrir íbúa þessa lands. Hinir sem sjá ekkert nema með blinda auganu eiga bara ekkert erindi þangað og því miður eru alltof margir  sem þannig er ástatt um , samanber fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna sem reyndu bara að klóra yfir óþverran sem þeir skilja eftir sig. Það er orðið hlægilegt þetta með innflytjendamálin. Á maður að trúa því að fólk skilji ekki mælt mál, það er að segja að Frjálslyndi flokkurinn leggji áherslu á það að það sé hugsað jafn vel um innflytjendur og þá sem búa fyrir í landinu. Ég leyfi mér að efast um að einhver meini það í raun, ef hann hugsar sig vel um,  að það sé ekki af hinu góða að hafa gott eftirlit og góða stjórn á þessum málum. Best gæti ég trúað því að þeir sem hrópa hæst um rasisma séu það sjálfir inn við beinið því margur heldur mig sig eins og máltækið segir.

Af hverju voru mannréttindi tekin af öryrkjum?

Hvernig stendur á því að fólk missir mannréttindi við að fara á örorku. Ég þekki konu sem er öryrki, metin 75% en er samt 100% öryrki furðulegt að vera þá ekki bara metin 100%. Hún  fékk sér vinnu tvo hálfa daga í viku, samtals 8 tíma, hafði í örorkubætur 58.000 á mánuði. Þvílík rausn. Við að fara í þessa litlu vinnu missti hún 8000 krónur af þessum rosalegu bótum. Að sjálfsögðu alltof mikið handa henni, hún er að hafa eitthvað  rúm 20.000 fyrir vinnuna á mánuði. Mér finnst þetta fjarri öllu velsæmi því að sjálfsögðu hefði ekki átt að skerða hana neitt. Á ekki að vera hægt að treysta læknum til þess að meta fólk til örorku ég bara spyr, og ef svo er,þá á fólk ekki að missa bæturnar þó að það fari í vinnu. Það er mannvonska að setja svona lög af fólki sem lifir í alsnægtum og veit ekki hvernig það er að eiga ekki fyrir næstu máltíð. Það þarf að hækka bæturnar og síðan á fólkið að mega að þreifa fyrir sér í vinnu og finna hvað það getur og þolir með góðu móti í nokkra mánuði án þess að missa bæturnar. Síðan mætti hugsa sér að hægt væri að koma upp kerfi þar sem fólk væri metið upp á nýtt til dæmis á hálfs árs fresti  Það er mjög undarlegt að refsa fólki fyrir að vinna  maður hefði haldið að það væri af hinu góða. Annað dæmi um þetta  er maður, sem er samskonar öryrki, fékk sér vinnu í mánuð, þoldi það ekki  en fékk 120.000 í laun og var refsað með því að missa bætur í fjóra mánuði á eftir.  Finnst ykkur þetta réttlátt?  Er ekki mál til komið að gefa svona ríkisstjórn frí næstu fjögur árin að minnsta kosti? Ég held það bara.

Við hjá Frjálslynda flokknum munum beita okkur fyrir mannréttindum öryrkja.

Munið X-F 12 maí


Skattarnir og börnin okkar.

Heil og sæl.

Jæja þá ætla ég að reifa hugmyndir mínar um einfaldari  og hagkvæmari skatta fyrir láglauna fólkið og barnafólkið. Ég vil leggja niður persónuafslátt og barnabætur í núverandi mynd. Barnabæturnar eins og þær eru í dag ala á órétti milli foreldra með tekjutengingu þannig að það er miðað við heildartekjur en ekki eftir skatta. Ég hef aldrei vitað að maður gæti notað sömu krónuna tvisvar eins og þeir sem settu þessi ólög virðast halda að sé hægt. Kannski eru þeir svona klárir að geta það, hver veit.

Skattleysismörk einstaklings þurfa að hækka.

Barnafólk fengi skattafslátt fyrir hvert barn frá fæðingu til 18 ára, fasta tölu í hverjum mánuði. Það er ekki sanngjarnt að það borgi það sama og þeir sem ekki eru með börn á sínu framfæri. Ef tekjur nægja ekki fyrir skattafslættinum þá borgar ríkið það sem upp á vantar.

Þetta er mun einfaldara, að vera ekki fyrst að taka skatt og reikna svo til baka einhverja  hungurlús og mismuna fólki stórlega. Fyrir utan að þetta myndi spara mikla útreikninga sem voru engum til góðs.

Síðan yrðu þrjú skattþrep þannig að þeir sem hæst hafa launin borgi mest.

Mín hugmynd er. 25% 35% og 45% í skattþrepin.

Endilega segið hvað ykkur finnst um þessar hugmyndir.

Brynja.

 

 

 


Hvaða starf er mikilvægast?

Mín skoðun er sú að móðurhluverkið sé æðsta starf sem til er og næst því er föðurhlutverkið. En það er sorglega lítils metið í dag. Ég vil hefja það til vegs og virðingar því ekkert kemur í staðinn fyrir góða foreldra sem hugsa vel um börnin sín. En því miður er þjóðfélagið orðið svo stofnanna vætt að það er jafnvel farið að panta leikskólapláss fyrir barnið um leið og það kemur undir, það finnst mér sorglegt. Er fólk þá bara að eiga börn til að setja þau á stofnun? Ég held ekki.  Heldur er búið að telja fólki trú um það að það sé réttur hvers barns að vera á leikskóla. Ég segi hins vegar að það sé réttur hvers barns að vera meira með foreldrum sínum en nú er.

 Ég hef grun um það að það sé fullt af konum og hugsanlega körlum sem myndu vilja vera meira með börnum sínum en geta það ekki af fjárhagslegum ástæðum og vil ég bæta úr því í gegnum skattakerfið og mun ég skýra það frekar þegar ég segi ykkur hvernig ég vil breyta því ykkur til hagsbóta og börnunum ykkar. Ég fór inn á heimasíðu Akureyrarbæjar sem auglýsa sig upp sem fjöldskylduvæna til að gá hvort þeir væru ekki með á stefnuskrá sinni að auðvelda foreldrum að vera meira með börnunum sínum með fjárstuðningi en ég fann ekkert um það, hinsvegar voru þeir tilbúnir að styrkja ýmislegt annað sem skiptir minna máli að mínu mati.

ÉG SKORA Á BÆJARSTJÓRN AKUREYRAR OG AÐRAR GÓÐAR BÆJARSTJÓRNIR AÐ BJÓÐA UPP Á ÞAÐ AÐ FORELDRAR GETI SÓTT UM AÐ FÁ STYRK FRÁ BÆNUM SEM NEMUR ÞVÍ SEM BÆRINN ER AÐ GREIÐA FYRIR LEIKSKÓLANN FYRIR VIÐKOMANDI BARN.  ÞANNIG AÐ FORELDRIÐ GETI VALIÐ HVORT ÞAРER HEIMA MEÐ BARNIÐ EÐA SETJI ÞAÐ Á LEIKSKÓLANN. ÞAÐ MYNDI ÉG KALLA ALVÖRU FJÖLSKYLDUSTEFNU . 

Ágætu foreldrar, ég á sjálf 8 börn og ég get með góðri samvisku sagt að það að vera með börnunum mínum  á meðan þau voru lítil er dásamlegasti tími í mínu lífi.

Ég er ekki að setja út á leikskóla sem slíka heldur tel ég að réttur barnsins sé fyrir borð borinn með lítilli samveru við foreldra sína. Ágætu mæður það er ekkert til að skammast sín fyrir að vilja vera hjá börnunum sínum. Við erum ólík karlar og konur og það á ekki að vera að reyna að gera konur að körlum og karla að konum við eigum að njóta þess að vera konur á okkar forsendum og eins er með karlana. Heyrumst síðar.


Kosningar 2007

Jæja þá er maður komin í slaginn. Ágætu kjósendur ég mun á næstu vikum segja ykkur frá,fyrir hverju ég vil berjast fyrir ykkar hönd.

 Mér finnst ekki skipta máli hvort það er kona eða karl á Alþingi heldur er aðalmálið hvernig maður vinnur vinnuna sína. Það að sitja á Alþingi er að vinna fyrir fólkið í landinu og tryggja það að enginn þurfi að lifa við hungurmörk í alsnægta þjóðfélagi. Það sé hægt að gera eitthvað annað en að vinna éta og sofa það er dapulegt að svo sé um fjölda manns og samt ná endar engan veginn saman. Við hjá Frjálslynda flokknum viljum breyta þessu og bæta hag þeirra sem standa höllum fæti. Ég er í framboði fyrir Frjálslynda flokkinn vegna þess að ég treysti því að hann hjálpi mér að vinna að góðum málum ykkur til hagsbóta.

Ef þið eruð ánægð með allt í þjóðfélaginu þá kjósið þið auðvitað okurstjórnina áfram.

En ef þið eruð óánægð og viljið breytingu til batnaðar þá SETJIÐ ÞIÐ X VIÐ F.

þið hafið engu að tapa en allt að vinna.

Ég mun svo halda áfram á morgun að segja ykkur fyrir hverju ég vil berjast fyrir ykkar hönd.

bless í bili.  Brynja.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband